Upplýsingar

Hlutverk seljanda:

Þegar íbúð er sett á söluskrá ber seljanda að skila inn veðbókarvottorði af eigninni og kvittunum af öllum lánum sem hvíla á eigninni. Ef eignin er í fjöleignarhúsi ber seljanda einnig að skila inn yfirlýsingu frá húsfélagi þar sem að upplýst er um greiðslustöðu hússjóðs, væntanlegar framkvæmdir o.fl. Eyðublað er hægt að fá hjá okkur á Eignamiðlun Suðurnesja og síðan þarf gjaldkeri/formaður húsfélagsins að fylla yfirlýsinguna út. Skiptasamninga þarf nú um fjöleignarhús en fjöleignarhús telst sú eign sem hefur að geyma tvær íbúðir eða fleiri. Um er að ræða nýmæli í lögum sem tók að fullu gildi um áramótin 2000/2001. Töluvert er um að slíkir samningar liggi ekki fyrir. Ef að þetta er eftir í þínu húsi þá er réttara að bretta upp ermar því að algengt er að það taki 3-4 mánuði að ganga frá skiptasamningnum. Kostnaður við gerð skiptasamnings greiðist af viðkomandi húsfélagi eða eigendum hússin. Ef þig vantar upplýsingar um hverjir geri skiptasamninga getum við á EignamiðlunSuðurnesja bent þér á nokkra sem hafa leyfi til slíkra verka. Allar frekar upplýsingar veita starfsmenn Eignarmiðlunar fúslega.

Hlutverk kaupanda:

Í langflestum kaupsamningum er gert ráð fyrir viðskiptum með húsbréf eða yfirtöku slíkra lána. Áður en kemur að kauptilboði þurfa kaupendur að fara í greiðslumat. Greiðslumöt eru gerð í öllum bönkum og sparisjóðum. Því næst gera kaupendur tilboð í fasteign og er kauptilboðið með fyrirvara um endanlegt samþykki Íbúðalánasjóðs. Algengur afgreiðslufrestur mála hjá Íbúðalánasjóði er 1-2 vikur. Kauptilboð eru ekki tekin til skoðunar nema að öll nauðsynleg gögn séu fyrirliggjandi. Þegar kauptilboð hefur verið samþykkt af Íbúðalánasjóði er gengið frá kaupsamningi/afsali og kostnaðaruppgjörum. Kaupandi greiðir allan kostnað við þinglýsingar lána, kaupsamnings, afsals auk lántökugjalda. Lántökugjald er 1% af upphæð fasteignaveðbréfs (húsbréfa) sé um nýtt lán að ræða. Ekkert er greitt ef kaupandi yfirtekur eldri lán. Stimpilgjald af kaupsamningi er 0,8% af fasteignamati eignarinnar auk 2.000.- kr. fastagjalds.Lögaðilar greiða 1,6% af fasteignamati. Stimpilgjald af nýjum lánum er % af upphæð þeirra auk 2.000.- kr. fastagjalds. Ekkert stimpilgjald er greitt ef um yfirtöku eldri lána er að ræða. Stimpilgjald af afsali er kr. 2.000.- ef kaupsamningi hefur þegar verið þinglýst, annars gilda sömu reglur um þinglýsingu afsals og kaupsamnings (sjá að ofan). Ef þinglýsa þarf umboðum, veðflutningum eða öðrum nauðsynlegum skjölum þarf að greiða kr. 2.000.- fyrir hvert skjal. Kaupandi greiðir allan kostnað við framkvæmdir á sameign sem ráðist er í eftir að kauptilboð hefur verið samþykkt og miða að því að auka verð eða notagildi eignarinnar. Þessi regla gildir svo framarlega að ekki hafi verið um annað samið og ákvarðanir um framkvæmdir hafi verið teknar eftir að kauptilboð var samþykkt af báðum aðilum.

Hver sér um þinglýsingu?

Þegar gengið hefur verið frá kaupsamningi sjáum við á Eignamiðlun Suðurnesja um að þinglýsa pappírunum. Venjulega tekur tvo virka daga að þinglýsa skjölum. Þegar þinglýsingu er lokið afhendum við Íbúðalánasjóði frumrit fasteignaveðbréfs (húsbréfa) ef um slík viðskipti er að ræða. Degi síðar eru húsbréfin tilbúin til afhendingar. Í flestum tilfellum sjáum við á Eignamiðlun um að sækja húsbréf til Íbúðalánasjóðs fyrir okkar viðskiptavini.

Kostnaðaruppgjör vaxta, fasteignagjalda o.fl.

Fjárhæðir yfirtekinna lána sem tiltekin eru í kauptilboði/kaupsamningi sýna uppreiknaða stöðu áhvílandi lána með verðbótum á kauptilboðsdegi. Seljandi greiðir alla gjalddaga yfirtekinna lána fram að afhendingardegi. Þegar afhending fer fram er staða lánanna endurreiknuð og greiðir kaupandi mismun ef lánin hafa lækkað en seljandi mismun ef lánin hafa hækkað. Vextir af lánum eru alltaf gerðir upp sérstaklega í fasteignaviðskiptum og miðast skipting þeirra milli kaupanda og seljanda við afhendingardag eignarinnar. Þannig greiðir seljandi vexti af áhvílandi lánum fram til afhendingardags en kaupandi frá sama tíma. Skipting fasteignagjalda miðast við sama tíma. Heildarupphæð álagðra fasteignagjalda fyrir allt árið er deilt í dagafjölda ársins og greiðir seljandi hlutfallslega fyrir þann tíma sem hann er í eigninni en kaupandi frá sama tíma. Þetta uppgjör nefnist kostnaðaruppgjör og er gert á sérstöku eyðublaði sem er undirritað og frágengið við gerð kaupsamnings eða við afhendingu eignar.

Skipting hússjóðsgjalda í fjöleignarhúsum.

Seljandi greiðir venjulegan rekstrarkostnað við sameign fjöleignarhúsa fram að afhendingu eignarinnar, þ.m.t. greiðslur í hússjóð. Seljanda ber ætíð að tilkynna formanni/gjaldkera húsfélags frá eigendaskiptum.

Frágangur afsals.

Ef kaupandi greiðir seljanda að fullu fyrir hina seldu eign við undirritun kaupsamnings er gengið frá afsali á sama tíma. Ef kaupandi hins vegar greiðir seljanda útborgunargreiðslur á útborgunarári frá því að kaupsamningur er gerður - eins og algengt er, er gengið frá afsali um leið og síðasta útborgunargreiðsla hefur farið fram. Kaupandi þarf að fylgjast með því að afsal sé gert þegar útborgunargreiðslur hafa verið greiddar að fullu.

Forkaupsréttur.

Í mörgum tilfellum eiga einhverjir aðilar forkaupsrétt á eignum sem eru til sölumeðferðar. Mest er um að sveitarfélög eigi forkaupsrétt á gömlum húsum eða félög eða samtök eigi forkaupsrétt á eignum innan síns svæðis. Þannig á t.d. Reykanesbær forkaupsrétt að mörgum eignum í sveitarfélaginu og hestamannafélagið Máni á forkaupsrétt á öllum hesthúsum á félagssvæðinu. Í forkaupsrétti felst að forkaupsréttarhafi getur gengið inn í kauptilboð/kaupsamning á sama verði og með sömu kjörum og kauptilboðið segir til um. Í flestum tilfellum sjáum við á Eignamiðlun Suðurnesja um að fá forkaupsréttarhafa til þess að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttur er nýttur eður ei. Í þessum tilfellum tekur samningurinn ekki gildi fyrr en forkaupsréttarhafi hefur hafnað forkaupsrétti.